Þá er þessu ævintýri lokið. Eiginlega má segja að þetta hafi allt hafist í október í fyrra þegar opnað var á skráningu í Erzberg, ég var úti á sjó, sem betur fer í sæmilegu netsambandi, og skráði mig strax þegar það var opnað, sem var eins gott því aðeins tók um 45 mínútur að seljast upp. Svo tók við undirbúningur og skipulagning sem hefur að nokkru verið rakinn hér. Seinnipartinn 4. júní var svo lagt í hann frá Eyjum og beint til Keflavíkur, hjólið fór með Dettifossi tæpri viku fyrr. Flogið út rétt fyrir kl. 1 eftir miðnætti 5. júní og lentir í Hamborg í bítið. Hótel Fíat pikkaður upp, gist í Hamborg og næsta morgunn náð í Hermann.
|
Hótel Fíat |
|
Fimm stjörnu
|
Allt gekk vel fyrir sig við afgreiðsluna á Hermanni og héldum við af stað af hafnarbakkanum. Komum við að tollhliði og vorum sendir í skoðun, þá byrjaði fjörið. Á tollsvæðinu voru tugir trukka sem voru að bíða eftir tollskoðun, og við tók fimm klukkustunda bið í sveittu herbergi eftir afgreiðslu, en aðal vesenið var að ekk var skráningarskýrteini meðferðis fyrir Hermann, Klúður!!. Þetta kostaði það að við komumst ekki af stað fyrr en um þrjú leitið á miðvikudeginum. Og þá tók loksins við 1040 km. akstur til Austurríkis. Gekk aksturinn ágætlega og vorum við komnir til Eisenerz upp úr kl. 2 um nóttina, þar var fíatinum lagt í stæði, dýnurnar blásnar upp og skriðið í pokann.
Fimmtudagur.
Svo var bara vaknað eldsnemma, keppnissvæðið fundið, komið sér fyrir á keppendasvæðinu, Hermann tekinn úr kassanum og settur saman og drifið sig í skráningu. Röðin í skráninguna var svakaleg! Og þar stóð ég algallaður í c.a. tvo klukkutíma í glampandi sól og steikjandi hita, en planið var nefnilega að fara beint úr skráningunni í Rocket Ride-ið sem byrjaði kl. 12:00. Og þar mætti maður og var ekki einu sinni búinn að sjá brekkurnar fyrir keppni! Þrátt fyrir það þá gekk ágætlega í Rocket Ride-inu komst upp allar brekkurnar í fyrsta heatinu, en þurfti að vísu að skjóta Hermanni síðasta spölinn. Eitthvað fipaðist kallinn í síðustu brekkunni í seinna heatinu og fór á hliðina, tók aðra tilraun og flaug upp án vandræða.
|
Á uppleið |
|
Hermanni skotið restina, þá var fagnað |
Rocket Ride var mjög skemmtileg keppni og endaði ég í 250. sæti af c.a. 450-500 keppendum. Fyrra heatið var ekið frá 12:00-15:00 og seinna frá 16:00-19:00, á milli heatanna var ekin skoðunar ferð upp Prolog brautina. Svo kl. 20:00 var Superfinal og var það frábær skemmtun að fylgjast með því, en sigurvegari í því var heimamaður, Seppi Fally.
Föstudagur.
Enn var vaknað snemma og nú til að gera sig kláran í Prologið. Ég var frekar lágt rásnúmer, eða 261, þannig að rástíminn í prologinu var c.a. 8:45-9:00 sem var mjög gott því að sem fleyri hjól keyra því verri verður brautin. Prologið er algjör GEÐVEIKI, keyrt alveg í botni 13 km. langan veg upp fjallið, en á þessum vegi skiptast á hraðir beinir kaflar, beygjur og sikk sakk milli malar ruðninga, á sumum köflum var maður á keyra á hnefastóru grjóti og jafnvel stærra, þarna vill enginn detta! Af 1800 keppendum í Prologinu var ég í 512. sæti á tímanum 0:13:29.4 sem dugði til að komast inn í Red Bull Harescamble á rásnúmerinu 499, en ekki eru allir sem taka þátt í Prologinu skráðir í Harescramble-ið, en þangað komast topp 500 tímarnir í Prologinu.
|
Veðrið var frábært á föstudeginum en mikið ryk |
|
Það var mikið adrenalín í Prologinu |
Kl. 19:00 var tekin hrikalega skemmtileg hópkeyrsla í gegnum bæinn, Sturm Auf Eisenerz/Raid On Eisenerz, þar tóku allir þátt sem höfðu eitthvað á hjólum til að taka þátt á, mikið fjör og fíflarí í gangi.
|
Þessi var skráður í Prologið |
|
Lagt í hópreiðina |
Ekki var allt ævintýri úti á þessum föstudegi, um kvöldið fórum við félagarnir að athuga með tímann í Prologinu sem var hengdur upp hjá race office um kl. 10. Þar var mikil örtröð þegar 1500+ ökumenn reyndu að komast að inni í litlu tjaldi þar sem blöðin héngu uppi, þegar við loks komumst að til að kíkja vantaði c.a. helmingin af blöðunum og engann tíma að sjá, fengum svo upplýsingar að heiman frá Jóni Gísla sem hafði farið á netið og séð úrslitin. Þegar við svo ætluðum að koma okkur upp á tjaldsvæði aftur var Hermann hvergi að finna........það var búið að STELA honum, nú voru góð ráð dýr, byrjaði ég á að tala við gæsluna sem hringdi í lögregluna. Lögreglan kom og fór ég með þeim í skýrslutöku. Svo upp úr miðnætti bárust fréttir af því að hugsanlega væri Hermann fundinn, fór ég með löggunni upp á tjaldsvæði og þar aðeins nokkrum bílum frá Hótel Fíat var Hermann. Hafði einhver draugfullur gaur tekið hann ófrjálsri hendi ekið honum upp á tjaldsvæði og var búinn að rífa af honum racenúmerin og tína transponder kortinu. En eftir að hringt hafði verið í Herra Katoch var ég fullvissaður um að ég gæti hjólað á morgun. Léttirinn var gríðarlegur þegar Hermann var fundinn og óhætt að segja að maður hafi verið svoldið þurr í kjaftinum þetta kvöld!
Laugardagur.
Rignt hafði um nóttina og rykið því í skefjum, aðeins dropaði þegar ég mætti á ráslínu fyrir seinni umferðina í Prololginu, fínar aðstæður. Átti ágætt rennsli og brautin bara nokkuð góð þrátt fyrir að hafa verið ekin c.a. 2000 sinnum. þegar seinni umferðin var u.þ.b. hálfnuð var komin úrhellisrigning og slæmt skyggni uppi á fjallinu og var hún því slegin af og gilti nú tíminn úr fyrri umferð hjá öllum.
|
Á öðru hundraðinu |
|
Laugardagurinn var blautur |
Sunnudagur.
Upp rann race dagur og byrjað á að fara á race office og fá ný númer. 499 "you're lucky" sagði daman þegar hún rétti mér númerin, hahaha. Svo var bara farið í pre-start og raðað á ráslínu. Fyrsta röð af stað á slaginu 12 og svo næstu raðir með um það bil 2ja mínútna millibili koll af kolli. Ég gleymdi auðvitað í öllu stressinu að kveikja á goproinum í startinu, en mér gekk fínt í startinu, Hermann fór ekki í gang í fyrsta kikki heldur öðru og svo var bara blastað, flaug upp allar fyrstu brekkurnar og náði að taka fram úr fullt af liði. Svo þegar aðeins lengra er komið byrja flöskuhálsarnir að myndast, og þegar maður kom í fyrsta skógarkaflann ver bara allt stíflað. Þá var bara reynt að komast framhjá mestu hrúgunni sem óhjákvæmilega leiðir til erfiðari leiða, með samvinnu komumst ég, austurrískur strákur og ítali, upp úr fyrsta skógarkaflanum og gegnum fyrsta checkpoint, Rocky Raccon, þaðan eftir grjótskriðu áfram og að checkpoint 2, Wasserleitung eða Waterpipe, sem er alveg svakaleg brekka sem margir áttu í vandræðum með. Var ég þar engin undantekning og komst þar upp í c.a. fimmtu tilraun. þar eftir tók við smá sprettur áður en maður stakk sér niður í annan skógarkafla, þegar hér var komið var farið að hellirigna og jarðvegurinn, grjótið og ræturnar á skógarbotninum orðið vægast sagt mjög sleipt, og auk þess lá leiðin upp mjög bratta brekku. Þegar örstutt var eftir í 3ja checkpoint, Burping Stones, fékk ég fréttir frá öðrum keppanda að búið væri að blása keppnina af vegna aðstæðna, 25 mín. fyrr en ætlað var. Þá var snúið við og haldið til baka í pitt. Þar lauk minni keppnisþátttöku í þessum frábæra og einum stæðsta viðburði í hardenduro heiminum í dag.
|
Ráslínan |
|
Fyrsta brekkan |
|
Svo áfram upp |
|
Maður var vel drullugur eftir startið |
|
Glímt við Wasserleitung |
Svo tók bara við frágangur og tiltölulega áfallalaust ferðalag heim. Jóni Högna vil ég þakka fyrir hjálpina og sérstaklega fyrir frábæran félagsskap, og svo má ekki gleyma að svona gerir enginn giftur maður nema vel giftur og það skilningsríkri eiginkonu og þakka ég henni óendanlega. Takk.
Yndislegt, frábært, geðveikt, sjúklegt hjá þér Binni.
ReplyDeleteMaður fékk bara tær í augun við að lesa þetta, ynnilegar hamingjuóskir með allt þetta ævintýri.
Já kallinn er sko þokkalega giftur vænni konu.
FRÁBÆRT.
Snilldar frásögn,, til hamingju með þetta afrek Binni
ReplyDeleteÞetta er bara snild :)
ReplyDeleteMan ekki eftir að hafa lesið þetta fyrr, Binni. Alla vega er lesturinn þess virði að lesa. Hvort sem það er í fyrsta skipti eða oftar. Skemmtileg grein og áhugaverð. Takk fyrir þetta kæri tengdasonur.
ReplyDelete